Þekkingargrunnur
Kerfisendurheimt: System Restore
Sent af Finnbogi Finnbogason on 24/11/2008 12:12
Hvað er Kerfisendurheimt (e. System Restore)?

Kerfisendurheimt er hluti af Windows XP og nýrri stýrikerfum sem gerir þér kleift að setja tölvuna þína í fyrra horf án þess að tapa persónulegum gögnum, s.s. Word skjölum eða tölvupósti. Kerfisendurheimt fylgist stöðugt með breytingum á stýrikerfinu og gerir þér kleift að endurheimta fyrri stillingar ef vandamál kemur upp án þess að þú tapir gögnum, eins og Word skjölum eða tölvupósti.

Kerfisendurheimt fylgist með breytingum á kerfinu og býr sjálfkrafa til afrit af kerfinu á ákveðnum tímapunktum. Í gegnum kerfisendurheimt er hægt að endurheimta þá uppsetningu á stýrikerfinu sem var á þeim tíma þegar afritið var tekið. Þessi afrit eru tekið daglega og í hvert sinn sem breyting hefur orðið á skrám stýrikerfisins. Ákveðinn fjöldi afritana er tekinn áður en nýjustu afritin skrifast yfir þau elstu.


Hvaða hættur leynast í Kerfisendurheimt?

Sumar veirur ná að skrifa sig inn í möppur stýrikerfisins og valda því að kerfisendurheimtin tekur afrit af kerfinu meðan tölvan er sýkt. Síðan er tölvan hreinsuð en eftir situr afritið í kerfisendurheimtinni.

Ef F-PROT verður vart við óværur sem sitja í Kerfisendurheimt tilkynnir hann um það og reynir að fjarlægja skrána. Tilkynningin segir í því tilfelli frá skrá sem heitir AXXXXXXX.YYY og situr á slóðinni "C:\System Volume Information\..."

Ekki þarf að óttast sérstaklega slíkar tilkynningar því þarna eru ekki virk smit á ferðinni heldur grunsamlegar skrár sem liggja í afritum. Hins vegar hætta á að ef einhvern daginn er þörf á að nota þessi afrit, geti smit gert vart við sig í kjölfarið.

Skráarkerfisvörnin í F-PROT Antivirus hefur í sumum tilfellum ekki aðgang til að eyða smituðum hlutum úr þessum afritum. Þar af leiðandi er eina leiðin við þær aðstæður yfirleitt að endurstilla kerfisendurheimtina.

Svona hreinsar þú út gömul afrit úr kerfisendurheimtinni:

  1. Smelltu á Start og hægri-smelltu á My Computer.
  2. Veldu Properties.
  3. Veldu System Restore hnappinn.
  4. Hakaðu við Turn off System Restore.
  5. Staðfestu valið með því að smella á Apply. Þegar spurt er hvort þú sért viss um þetta, veldu Yes.
  6. Hinkraðu nokkra stund meðan verið er að hreinsa út úr afritunum.
  7. Taktu nú hakið aftur úr Turn off System Restore
  8. Smelltu í þetta skiptið á OK til að staðfesta og loka um leið glugganum.

Athugaðu að um leið og þú virkjar kerfisendurheimtina að nýju, er nýtt og ósmitað afrit tekið af uppsetningu tölvunnar og geymt í kerfisendurheimt.

(1 atkvæði)
Þessi grein var hjálpleg
Þessi grein var ekki hjálpleg

F-PROT Antivirus og Command Anti-Malware eru vírusvarnir frá CYREN