Þekkingargrunnur
Hvernig á að búa til öruggt lykilorð
Sent af Steinn Ingi Þorsteinsson on 11/06/2012 16:47


Tölvunotendur þurfa æ oftar að skrá lykilorð á internetinu, ýmist við kaup á vörum eða þjónustu eða til að nýta sér heimasíður á borð við tölvupóst og Facebook. Notendur mæta því reglulega þeirri áskorun að búa til lykilorð sem er bæði öruggt og auðvelt að muna. Gott lykilorð er einn af lykilþáttum tölvuöryggis enda eru vírusvörn, eldveggur og aðrar öryggisráðstafanir mun áhrifaminni ef tölvuþrjótar komast yfir lykilorð notanda. Við höfum tekið saman nokkur ráð sem er gott að fylgja við gerð lykilorða.

 

# Notaðu blöndu af bókstöfum, tölustöfum og sérstökum táknum á borð við #, $, % eða &. Hafðu bæði hástafi og lágstafi.

# Ekki byggja lykilorð á nafni, heimilisfangi, símanúmeri eða öðrum persónuupplýsingum. Nafnið á gæludýrinu þínu, uppáhalds fótboltaliðinu þínu eða afmælisdagar fjölskyldumeðlima eru líka afleit lykilorð.

# Breyttu lykilorðinum þínum reglulega, t.d. á þriggja mánaða fresti.

# Ekki nota sama lykilorðið oftar en einu sinni. Ef óprúttinn aðili kemst yfir lykilorðið þitt á Amazon viltu ekki að hann geti skoðað tölvupóstinn þinn eða komist inn á netbankann þinn.

# Ekki nota notendanafn sem lykilorð.

# Ekki nota runu af lyklaborðinu sem lykilorð, t.d. 12345 eða asdfzxcv. Lykilorðið password er einnig óæskilegt.

# Ekki nota orð úr ensku orðabókinni. Tölvuþrjótar nota sérstaka aðferð til að ráðast á síður og kanna hvort einhver lykilorð á síðunni eru mynduð úr algengum orðum. Slíkt tekur ekki langan tíma nú á tölvutímum. Þá breytir ekki hvort orðin eru skrifuð afturábak.

# Þeim mun lengra sem lykilorðið þitt er, þeim mun öruggara er það.

# Ekki skrifa niður lykilorðið þitt eða deila því með öðrum.

# Til eru forrit sem aðstoða notendur við að halda utan um allan þann fjölda lykilorða sem virkur tölvunotandi þarf að nota. Við mælum með Keepass, Roboform eða PasswordSafe.

 

Hægt er að nýta ákveðna tækni til að búa til lykilorð sem er bæði öruggt og auðvelt að muna. Til dæmis er hægt að nota málshátt, ljóðlínu eða setningu úr uppáhalds skáldsögunni til að búa til gott lykilorð. Tökum dæmi málsháttinn Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Teknir eru fyrstu stafirnir úr hverju orði. Þá verður til runan sfelfe. Breytum nokkrum af stöfunum í tákn eða tölur, og höfum restina af stöfunum ýmist hástafi eða lágstafi. S gæti orðið $ og f breyst í 4. Þá værum við komin með $4eL4e. Ef þetta er lykilorð fyrir Facebook væri hægt að bæta við fcb fyrir Facebook. Þá yrði útkoman $4eL4efcb. Sko! Þá ertu kominn með öruggt lykilorð sem er auðvelt að muna. Eftir þrjá mánuði velurðu síðan nýjan málshátt og býrð þér til nýtt lykilorð.

 

Það er mjög algengt að tölvuþrjótar reyni að stela lykilorðum, enda oft auðveld leið til að verða sér úti um einhverja peninga. Stundum eru notuð sjálfvirk tól sem kerfisbundið reyna að komast að lykilorðum á algengum síðum. Sumir reyna að veiða lykilorð upp úr notendum með slóttugum leiðum, t.d. fölskum tölvupóstum sem virðast vera frá lögmætum aðila. Ef þú fylgir leiðbeiningum okkar um gott lykilorð ertu öruggari en ella á netinu. 

(15 atkvæði)
Þessi grein var hjálpleg
Þessi grein var ekki hjálpleg

F-PROT Antivirus og Command Anti-Malware eru vírusvarnir frá CYREN